Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 640. máls.
135. löggjafarþing 2007–2008.
Þskj. 1204  —  640. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um heimild ríkissjóðs Íslands til sérstakrar lántöku á árinu 2008.

Frá meiri hluta fjárlaganefndar.



    Nefndin vísaði málinu til efnahags- og skattanefndar 27. maí 2008 þar sem óskað var eftir umsögn um frumvarpið. Formaður efnahags- og skattanefndar kynnti umsögn nefndarinnar sem fylgir með áliti þessu.
    Meiri hluti fjárlaganefndar leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.
    Ásta Möller var fjarverandi við afgreiðslu málsins.
    Bjarni Harðarson og Guðjón A. Kristjánsson skrifa undir álit þetta með fyrirvara.

Alþingi, 28. maí 2008.



Gunnar Svavarsson,


form., frsm.


Kristján Þór Júlíusson.


Steinunn Valdís Óskarsdóttir.



Guðbjartur Hannesson.


Ármann Kr. Ólafsson.



Illugi Gunnarsson.



Björk Guðjónsdóttir.


Bjarni Harðarson,


með fyrirvara.

Guðjón A. Kristjánsson,


með fyrirvara.






Fylgiskjal.


Umsögn



um frv. til l. um heimild ríkissjóðs Íslands til sérstakrar lántöku á árinu 2008.

Frá efnahags- og skattanefnd.



    Hinn 27. maí 2008 barst nefndinni erindi frá varaformanni fjárlaganefndar þar sem óskað var eftir umsögn efnahags- og skattanefndar um frumvarp fjármálaráðherra til laga um heimild ríkissjóðs Íslands til sérstakrar lántöku á árinu 2008.
    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Baldur Guðlaugsson, Þórhall Arason og Bergþóru Bergsdóttur frá fjármálaráðuneyti og Ingimund Friðriksson frá Seðlabanka Íslands.
    Í frumvarpinu er lagt til að ríkissjóði verði heimilað að taka lán fyrir allt að 500 milljörðum kr. á árinu 2008 eða jafnvirði þeirrar fjárhæðar í erlendri mynt. Er annars vegar gert ráð fyrir að nýta megi heimildina til töku erlends láns í því augnamiði að styrkja gjaldeyrisforðann, hins vegar að nýta megi heimildina til aukinnar útgáfu ríkisskuldabréfa á innlendum markaði í þeim tilgangi að styrkja innlendan peninga- og gjaldeyrismarkað.
    Gestir sem komu fyrir nefndina sögðu að upphæð lánsheimildarinnar skýrðist einkum af áformum ríkisstjórnarinnar um að styrkja gjaldeyrisforða Seðlabanka Íslands umfram það sem gert var 2006 þegar ríkissjóður tók erlent lán að fjárhæð 1 milljarður evra sem endurlánað var Seðlabankanum en við það tvöfaldaðist gjaldeyrisforði bankans. Einnig töldu gestir æskilegt að hafa svigrúm til frekari útgáfu innlendra ríkisskuldabréfa.
    Sterk staða ríkissjóðs og gjaldeyrisskiptasamningar sem Seðlabanki Íslands hefur nýlega gert við seðlabanka í Danmörku, Noregi og Svíþjóð greiða fyrir erlendri lántöku. Gangi hún eftir mun lánsfjárhæðin verða endurlánuð Seðlabanka Íslands sem ávaxta mun féð erlendis á tryggan hátt þannig að féð sé ætíð laust til ráðstöfunar. Áhrifin ættu að koma fram í auknu trausti á íslenskt efnahagskerfi auk þess að styrkja lánshæfismat ríkissjóðs og innlendra fjármálastofnana.
    Upplýst var í nefndinni að ef lántökuheimildin yrði alfarið nýtt til að styrkja gjaldeyrisforða Seðlabankans mundi hann ráða yfir nærri 900 milljarða kr. forða að meðtöldum framangreindum gjaldeyrisskiptasamningum.
    Við umfjöllun nefndarinnar kom fram að unnið er að undirbúningi lántöku ríkissjóðs í formi skuldabréfaútgáfu á erlendum mörkuðum. Ekki liggur fyrir hvenær eða að hvaða marki heimildin verður nýtt innan lands eða erlendis en í fyrstu verður hún tæpast nýtt nema að hluta. Erfitt er að geta sér til um hvaða lánakjör ríkissjóði munu bjóðast enda háð aðstæðum á mörkuðum á hverjum tíma.
    Nefndin leggur til að fjárlaganefnd samþykki frumvarpið óbreytt.

Alþingi, 27. maí 2008.



Pétur H. Blöndal, form.,
Ellert B. Schram,
Bjarni Benediktsson,
Lúðvík Bergvinsson,
Paul Nikolov,
Jón Bjarnason, með fyrirvara,
Guðbjartur Hannesson,
Höskuldur Þórhallsson,
Ólöf Nordal.